13.6.2012 | 19:24
Svartur dagur í umferðaröryggi á Íslandi.
Í upphafi voru Vaðlaheiðargöng inni í samgönguáætlun sem ríkisframkvæmd eins og allar aðrar úrbætur á vegakerfinu. Þar voru þau ekki fremst í röðinni, þegar samanburður var gerður um mikilvægi, hagkvæmni, umferðaröryggi o.fl.
Þar sem það var ekki nóg, var reynt að finna þeim tilverurétt, með því að fara með þau í "Einkaframkvæmd" og fjármagna þau með lánsfé, sem endurgreitt yrði með veggjöldum.
Á þeim forsendum og sem algjört skilyrði voru lög 97/2010 samþykkt á Alþingi. Leitað var eftir fjármögnun hjá lífeyrissjóðunum, en það rann út í sandinn vegna vaxtakjara og áhættumats lífeyrissjóðanna á að veggjöld gætu staðið undir framkvæmdinni.
Í fjáraukalögum 2011 var samþykkt heimild til lántöku og ríkisábyrgð fyrir Vaðlaheiðargöng að upphæð 1 miljarð króna. Sú samþykkt var skilyrt því að göngin væru algjörlega sjálfbær og veggjöld myndu standa undir framkvæmdinni, skv. Lögum 97/2010.
Miklar efasemdir hafa verið uppi um forsendur og hagkvæmni Vaðlaheiðarganga. Umhverfis og samgöngunefnd skoðaði málið mjög vel og samþykkti að óska efitr óháðu mati á forsendum framkvæmdarinnar. Því var hafnað og slíkt mat hefur ekki frarið fram. Fjármálaráðuneytið lét vinna IFS skýrsluna, Pálmi Kristinsson gerði sína eigin, FÍB hefur gert ýmsar kannanir auk fleiri aðila. Við þetta hafa efasemdirnar bara aukist.
Þegar hefur Vegagerðin lagt út í kostnað vegna þessa verkefnis upp á hundruðir milljóna króna, þó svo að ekki hafi verið ákveðið að fara út í Vaðlaheiðargöng á þessum forsendum. Það er án fjárheimilda.
Nú var fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp, þar sem ríkið á ekki aðeins að veita ríkisábyrgð fyrir öllu verkinu, 8.7 miljarða án VSK, miðað við verðlag í lok árs 2011, heldur einnig að lána og leggja til hverja einustu krónu í verkefnið til hlutafélagsins Vaðlaheiðargöng hf. Veð er einungis félagið sjálft, eignir þess og væntanlegt tekjustreymi. Fram kemur í gögnum með frumvarpinu, að innborgað hlutafé þessa félags eru 20 milljónir króna. Að megninu til er um að ræða opinbert fé. Heimilt er að auka hlutaféð í 600 milljónir, en það hefur ekki tekist. Búið er að safna einhverjum hlutafjárloforðum sveitarfélaga á svæðinu, sem ætlunin er að greiða á næstu árum og þá að sjálfsögðu með opinberu fé. Forsendur þess að kalla þett "Einkaframkvæmd" eru því engar. Þetta er hrein og klár opinber framkvæmd, þ.e. "Ríkisframkvæmd". Fálm í þá átt að finna þessu nýyrðið "Eiginframkvæmd" eins og Vegagerðin krafsaði í bakkan með á vefsíðu sinni eru nánast hlægilegar.
Því til viðbótar á að falla frá lögum um ríkisábyrgðir, sem einnig eiga við um lánveitingar ríkissjóðs, er óheimilt er að lána meira en nemur 75% af heildar ánsfjárþörf verkefnis og lánþeginn þrufi að leggja fram, amk. 20% af heildarfjárþörf verkefnisins. Takist Vaðlaheiðargöngum hf. að leggja fram 600 miljónir er það innan við 7% og miðað við innborgað hlutafé í dag er það 0.22%. Hvað varðar heildar viðmiðið 75% næst það ekki því hér er um að ræða 100% lán ríkisins. Hvaðan eiga þessar krónur að koma??? Heilbrigðismálum, umönnun aldraðra, menntamálum eða samgönguáætlun og þar með stöðva þar með og tefja aðrar mun mikilvægari framkvæmdir. Kanski á bara að prenta þessa peninga þetta með nýjum 10.000 króna seðli, eða draga upp úr götóttum vösum á nýju fötum keisarans.....
Í gögnum með frumvarpinu kemur fram, m.a. frá Ríkisábyrgðasjóði og fjármálaráðuneytinu að Vaðlaheiðargöng uppfylli enganvegin skilgreiningu á "Einkaframkvæmd" heldur sé algjörlega orðin "Ríkisframkvæmd". Mikil óvissa fylgi verkefninu og því mælt með því að Vaðlaheiðargöng verði sett aftur inn í samgönguáætlun eins og hver önnur ríkisframkvæmd í samgöngumálum.
Eitt dæmi er á Íslandi um "Einkaframkvæmd" í jarðgangnagerð, sem eru Hvalfjarðargöngin í eign og reksti Spalar ehf. Sú framkvæmd var fjármögnuð algjörlega á frjálsum markaði, án aðkomu ríkisins á nokkurn hátt og ekki með ríkisábyrgð. Áhætta ríkisins af þeirri framkvæmd var ENGIN. Bygging og rekstur Hvalfjarðarganga fór algjörlega samkvæmt áhætlun. Þau eru nokkuð styttri en Vaðlaheiðargöng, sem auk þess eru með 1/5 af umferðarmagni Hvalfjarðarganga. Algjörlega hefur verið skautað framhjá því að nýta reynslu Spalar ehf. hvað varðar undirbúning Vaðlaheiðarganga.
Þá er rétt að nefna, að verulega virðist skorta á í rekstraráætlun VHG, þar sem reksturinn er talinn kosta um 70 milljónir á ári, meðan rekstur Hvalfjarðarganga margfalt meiri, eða um 250 milljónir á ári. Í því sambandi má m.a. nefna vátryggingar, sem hlutafélögum ber að taka vegna vegna ábyrgðartrygginga, eigin tjóns og rekstrarstöðvunar. Það gerir Spölur vegna Hvalfjarðarganga upp á tugi milljóna á ári, en Vaðlaheiði hf. sleppir í öllum sínum rekstraráætlunum.
Ekkert er rætt um jarðfræðirannsóknir á Vaðlaheiði og hvaða hættur gætu leynst á því sviði. Það litla sem ég hef fundið um það efni er nú ekki glæsilegt. Í stöðuskýrslu Jarðfræðistofunnar ehf. frá 2006 er sagt að berglögin í Vaðlaheiði séu "ókræsileg" til jarðgangagerðar. Mikið er af setlögum, sprungur ganga þvert á göngin, gunnvatnsstaða sé há og því megi gera ráð fyrir miklum leka og öðrum vandræðum við gerð Vaðlaheiðarganga. Engin umræða, eða nánari rannsóknir finnast um þetta efni, sem þó er ein af grunnforsendum við gerð jarðganga og getur haft veruleg áhrif á kostnað.
Af öllu framansögðu og í samræmi við samþykkt Umhverfis og samgöngunefndar ætti því að setja Vaðlaheiðargöng aftur í samgönguáætlun eins og aðrar samgönguframkvæmdir. Áhætta ríkissjóðs við þessar æfingar er alltof mikil og allar forsendur fyrri samþykkta alþingis algjörlega brostnar.
Hér fyrir neðan er yfirlit yfir þau rök og rangfærslur sem haldið hefur verið fram af talsmönnum Vaðlaheiðarganga.
Hver eru rökin fyrir Vaðlaheiðargöngum.
Haldið fram af KLM, SJS, SER, HÞ og Vaðlaheiðarbandalaginu.
Samantekt á staðreyndum.
Hér að neðan er samantekt yfir helstu fullyrðingar og ástæður sem talsmenn Vaðlaheiðarganga hafa haldið á lofti. Fæstar þeirra halda vatni eða eru beinlínis rangar.
1. Gífurleg samgöngubót - RANGT
a. Margar brýnni, t.d. Vestfirðir, Norðfjarðargöng, Suðurlandsvegur og margt fleira. Víkurskarð er langt frá því að vera slæmur vegur.
b. Ekki mikið um lokanir. Margir fjallvegir verri á vegi 1 og víðar, t.d. Hellisheiði, Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði, Ljósavatnsskarð o.fl.
2. Veruleg stytting hringvegarins - RANGT
a. 16 km stytting í vegalengd á hringveginum.
b. 8 mínútur í tíma. (Mælt á EuroRAP bílnum)
c. T.d. Norðfjarðargöng er álíka stytting í tíma og aðrir kostir í Eyjafirði gætu skilað meiri styttingu (Eyjafjarðargöng). Stytting vegna Hvalfjarðarganga er 41 km. og Fáskrúðsfjarðarganga tæpir 35 km.
d. Mun meiri stytting hringvegarins möguleg, t.d. Öxi, þverun Berufjarðar, Svínavatnsleið í Húnavatnssýslu o.fl..
3. Byggðaþróunarmál vegna sameiginlegs atvinnusvæðis "RANGT - ÓLJÓST"
a. Akureyri og Húsavík verða tæplega eitt atvinnusvæði, þar sem of langt er á milli. 53 km. Í loftlínu og 91 km. í vegalengd. Þrátt fyrir tilkomu Vaðlaheiðarganga er vegalendin 75 km. Sem er of mikið fyrir eitt atvinnusvæði. Stytting á þessari leið er því óveruleg með tilkomu ganganna, hvort sem í tíma eða vegalengd. Talið er að 50 km. vegalengd sé hámark fyrir eitt atvinnusvæði.
b. Miðað við 10 lítra meðaleyðslu, væri bara eldsneytiskostnaður um 4000,00 krónur á dag milli Akureyrar og Húsavíkur. Við það bætist kostnaður við að aka um göngin, þannig að heildar kostnaður gæti verið um 6.000,00 krónur á dag, eða yfir 120.000,00 á mánuði. Þá þarf að hafa í huga aksturstíma upp á um 2 klukkustundir á dag.
c. Mun nauðsynlegra að gera úrbætur á vegi 85 til Húsavíkur, sem er að mestu 2 stjörnu vegur, meðan Víkurskarð er með 3 stjörnur skv. EuroRAP. Aðrir vegir á svæðinu sem Vaðlaheiðargöng leysa ekki af hólmi eru 2 stjörnu, svo sem Ljósavatnsskarð, Grenivíkurvegur, Ólafsfjarðarvegur og austanverður Eyjafjörður.
d. Fjárhagslegur vinningur vegfarenda er enginn. Sparnaður í eldsneyti við að fara Vaðlaheiðargöng í samanburði við að aka Víkurskarð er enginn. Með fyrirhugðu veggjaldi verður mun dýrara að aka göngin en að fara Víkurskarð. Í Hvalfjarðargöngum er þessu öfugt farið. Það er fjárhaslegur ávinningur að fara göngin og jafnvel hagnaður ef um eyðslumikla bíla er að ræða. Auk þess er verulegur tímasparnaður af Hvalfjarðargöngum, 31 mínúta, á móti 8 mínútum með Vaðlaheiðargöngum. (Sjá töflu)
4. Einhver mesta umferðaröryggisbót landsins (KLM - HÞ) "RANGT".
a. Víkurskarð er í 98. sæti yfir áhættumestu vegi landsins.
b. Víkurskarð er ekki í topp 10 yfir slysamestu vegi landsins.
c. Víkurskarð er ekki einn af slysamestu vegköflum á norðurlandi.
d. Á 8 ára tímabili eru 3 alvarleg slys í Víkurskarði. Á sama tímabili eru 17 alvarleg slys og banaslys á Hellisheiði á vegi 1. Hættulegri kaflar í Eyjafirði, sem göngin leysa ekki af hólmi.
e. Vegurinn um Oddskarð er með sömu slysasögu og Víkurskarð. Umferð á Oddskarði er rúmlega tvöfallt minni. Því eru vegabætur á Oddskarði með Norðfjarðargöngum tvöfallt mikilvægari en Vaðlaheiðargöng útfrá slysasögu.
 
f. Hér er slysastaða Víkursskarðs á 20 ára tímabili miðað við landið:
1991 - 2010 Banasl. Alvarl.sl Lítil m. Samtals
Landið 361 3273 15716 19350
Víkurskarð 1 6 17 24
Af heild % 0,28 0,18 0,11 0,12
Höskuldur Þórhallsson alþingismaður hélt því fram á Bylgjunni að þetta banaslys hafi orðið vegna hálku og þess hve Víkurskarð er hættulegur fjallvegur. Þetta slys varð í lok júní og sannleikurinn er sá, að vegurinn og umhverfi hans hafði ekkert með þetta slys að gera. Orsökin var bilun í ökutæki, beltaleysi og farmur sem losnaði.
5. Atvinnusköpunarmál í kreppu - "RANGT"
a. Þetta verður unnið af erlendu vinnuafli að miklu leiti. Það var reyndin með Héðinsfjarðargöng og Bolungarvíkurgöng.
b. Mikið gjaldeyrisútstreymi – erlendir verktakar. Þetta þyrfti að taka saman sérstaklega og skoða í síðustu göngum til samanburðar.
c. Önnur miklu mannaflsfrekari innlend verkefni fyrir hendi.
6. Gamalt loforð næst á eftir Héðinsfjarðargöngum "Hver gaf það"
a. Skiptimynt fyrir kjördæmabreytinguna.
b. Svoleiðis vinnubrögðum átti að ljúka eftir hrunið og þó fyrr hefði verið.
7. Góðu lagi að taka áhættu vegna þessa máls (SJS) "Hrunið hvað"?
a. Allir sem segja annað vilja ekki taka ánættu.
b. Langur undirbúningur.
c. Of seint að stoppa núna, o.s.frv.
d. Þeir sem gagnrýna, eiga að sýna fram á ástæður.
e. Engin framþróun, nema að taka áhættu.
f. Samanburður við Hörpuna. Þar var tekin áhætta..... Enda er endalaus fjárþörf þar. Miljarður á ári frá ríkinu og annað eins frá Reykjavíkurborg. Hof er annað dæmi sem er að sliga Akureyrarbæ.
8. Tekjur ríkisins eftir að rekstur hefst - "Neikvæðar"
Niðurstaða úr yfirliti fjármálaráðuneytisins vegna Vaðlaheiðarganga, sem fylgir frumvarpinu er: "Að framansögðu eru samandregin áhrif Vaðlaheiðarganga á tekjur ríkissjóð eftir að rekstur þeirra er hafinn talin vera neikvæð um sem nemur nálægt 50 m.kr. á ári" (Undanþegið sköttum 7% útskattur 25.5% innskattur).
Höfum við virkilega ekkert lært á hruninu!!!
Ólafur Guðmundsson.
Vaðlaheiðargöng fá grænt ljós | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ólafur Kristinn Guðmundsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kristjáni L. Möller er að takast að byggja stóra minnisvarða um sjálfan sig og þingmannsetu sína. Meira segja Árni Johnsen kemst ekki með tærnar þar sem KLM hefur hælana í þessum efnum. Sumir þingmenn eru ríkissjóði dýrari en aðrir.
PS: Þú mættir lagfæra færsluna þar sem gæsalappir skila sér ekki rétt.
Erlingur Alfreð Jónsson, 13.6.2012 kl. 20:11
Takk fyrir þetta.
Segir þjóðinni mun meira en lygar spilltra pólitíkusa.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.6.2012 kl. 21:14
"Mun meiri stytting hringvegarins möguleg..... Svínavatnsleið í Húnavatnssýslu..." það er bara ekki rétt, verið er að tala um 7-13 km. Annars er ég sammála þér
Brynjar Þór Guðmundsson, 13.6.2012 kl. 23:32
Þvílíkt svartsýnis raus Ólafur.
Eigum við ekki bara að breiða sængina yfir haus og halda okkur heima.
Eina sem vantaði í þessa upptalningu þína er að Valaheiðin fari sennilega að gjósa.
Reyndu að halda þessari færslu inni í nokkur ár það verður svo gaman að skoða hana ef af göngum verður:-)
Haukur Eiríksson (IP-tala skráð) 13.6.2012 kl. 23:43
Hér er ekki um svarsýnisraus að ræða Haukur Eiríksson, hér er einfaldlega stiklað á hrikalegum staðreyndum.
Ólafur hefur ákaflega mikla reynslu af vegamálum á Íslandi, sem og erlendis, sennilega fáir sem þekkja þetta eins vel og hann.
Hér talar því maður með reynslu sem við ættum að hlusta á.
Það er í raun magnað að sjá að þetta mál, eins illa undirbúið og það virðist vera, skuli hafa sloppið í gegn á "hinu háa" Alþingi.
Þá finnst mér einnig glatað að "fjórða valdið", fjölmiðlarnir, hafi ekki fjallað meira og ítarlegar um þetta mál sem mun kosta skattgreiðendur alltof mikla peninga í nánustu framtíð.
Þetta er svartur dagur fyrir lýðræðið, en bjartur dagur fyrir kjördæmapotara og lýðskrumara. Það hefur nákvæmlega EKKERT breyst á "hinu háa Alþingi" frá hruni!
Benni, 14.6.2012 kl. 10:16
Ég er ekki mikið fyrir þessa framkvæmd en það eru merkilegir reikningar að stytting um 16 km, stytti aðeins ferð um 8 mínútur. Það svarar til 120 km/klst í hraða sem ég er nokkuð viss um að sé ofmetinn meðalhraði.
Héðinn Björnsson, 15.6.2012 kl. 09:32
Þetta er mælt með EuroRAP, B class Benzinn var ekki að keyra á 120km hraða um landið
Menn mega ekki gleyma því að það mun taka tíma að keyra í gegnum gögnin sjálf, svo að tímasparnaðurinn ku vera 8 mín.
Benni, 17.6.2012 kl. 11:57
Bara til að skýra mismunin á að aka Víkurskarð eða væntanleg Vaðlaheiðargöng. Þetta var mælt með EuroRAP bílnum og nákvæmum tækjum sem í honum eru. Allt tekið upp á videó og tímamælt.
Að aka um Víkurskarð á eðlilegum umferðarhraða og undir hámarkshraða, þá er vegalengdin frá brúnni yfir Fnjóská og að gatnamótunum við Veigastaði, þar sem göngi munu tengjast hringveginum Akureyrarmegin er vegalengdin 26.04 km. Tíminn sem það tók að aka þetta er 18 mínútur.
Til samanburðar var gerð mæling í Hvalfjarðargöngum með lengdarmismun Vaðlaheiðarganga viðbættum og aðkomuvegunum skv. áætlun Vaðlaheiðarganga. Sú vegalengd er 10.20 km. frá sömu punktum við Fjnóská og í gegn að tengipunktinum við Veigastaði, eins og næst verður komist. Hámarksharði í göngunum verður 70 eins og í Hvalfjarðargöngum. Einnig er tíminn sem það tekur að hægja á sér við gjaldskýli, þar sem hraðinn er 30 og 15. Sama verður í Vaðlaheiðargöngum, hvort sem um verður að ræða mannaða eða ómannaða gjaldtöku. Niðurstaðan var að það tók 10 mínútur að aka þessa leið.
Sparnaðurinn í tíma er því 8 mínútur og í vegalengd 15,84 km. Til samanburðar er samsvarandi sparnaður við að fara Hvalfjarðargöng eða aka fyrir Hvalfjörð 41,37 km. og í tíma 31 mínúta.
Að teknu tilliti til eldsneytissparnaði og veggjaldinu við að aka um göngin, þá er hagnaður fyrir ökumenn að fara Hvalfjarðargöngin allt að 450 kr. eftir eyðslu bíla, en tap að fara um væntanleg Vaðlaheiðargöng allt að 700 kr. í öllum tilfellum, sama hvað bíllinn eyðir. Allveg sama hvernig maður ber saman sparnað pr. km. eða pr. mínútu, þá munu menn alltaf borga mun hærra fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng frekar en Víkurskarð. Þessu er allveg öfugt farið hvað varðar Hvalfjarðargöng. Sparnaður vegfarenda verður enginn með Vaðlaheiðargöngum.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 17.6.2012 kl. 15:11
Það er svolítið merkilegt að lesa þennan pistil hjá þér, þar sem þú telur þig hafa ómælt vit á umferðarmálum. Sumt af því sem þú fullyrðir í þessum pistli er nefnilega rangt hjá þér.
Þú segir t.d. að sparnaður vegfarenda verði enginn með Vaðlaheiðargöngum, það er rangt hjá þér.
Hérna er bara eitt dæmi.
Bílar frá MS á Akureyri fara að jafnaði 30 ferðir á viku yfir Víkurskarð og talið er að göngin muni spara MS á bilinu 9-12 milljónir á ári, í eldsneytiskostnað.
Ingvar Kristjánsson (IP-tala skráð) 18.6.2012 kl. 20:07
Sæll Ingvar.
Ég tel mig alls ekki hafa ómælt vit á umferðarmálum. Bara töluvert....
Ef ég man rétt, þarf eldsneytiseyðsla bíls að vera 22 lítrar á hundraðið, til að það sé orðinn hagnaður á því að aka um væntanleg Vaðlaheiðargöng, miðað við núverandi eldsneytisverð. Þetta er miðað við meðalgjaldtöku á fólksbíl.
Flutningabílar greiða mun hærra veggjald, þannig að raunverulegur sparnaður náist ekki fram, þó svo að ég hafi ekki reiknað þetta sérstaklega út fyrir mjólkurbíla. Sé það rauninin að 9 - 12 milljónir náist í sparnað fyrir MS á Akureyri á ári, að teknu tilliti til veggjaldsins, þá þykir mér 10 miljarða göng dálítið hátt gjald fyrir þann sparnað.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.6.2012 kl. 23:40
Áætluð veggjöld voru svona: stök ferð /40 ferða kort
Gjaldflokkur I (styttri en 6m) /993/864
Gjaldflokkur II(6 – 8 m) /2513/ 2186
Gjaldflokkur III(8-12m)) / 4700 / 4089
Gjaldflokkur IV (lengra en 12 m) / 6401/ 5569
Gjaldflokkur V (mótorhjól) 496
Bjartur í Sumarhúsum (IP-tala skráð) 22.6.2012 kl. 00:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.